Svolítið um sjávarútveg, sjómenn, fiskverkunarfólk o.fl.

Sjálfbær, hagkvæm og arðbær nýting náttúruauðlindar. Ættum við ekki að vera mjög stolt af því? Ég veit að aðrar fiskveiðiþjóðir öfunda okkur a.m.k. mikið vegna þess og horfa mjög til okkar. Þeim hefur nefnilega langfæstum tekist þetta og satt að segja eiginlega engum betur en okkur.

Og allir viðurkenndir mælikvarðar sýna, svo ekki verður um villst, að sjómennirnir okkar eru einhverjir þeir duglegustu og bestu í heimi og fiskverkunarfólkið okkar er frábært. Hæfni þessa fólks og þekking er viðurkennd um allan heim. Á þetta fólk ekki skilið að njóta sannmælis? Á það lengi enn að þurfa að þola að neikvæð umræða um fiskveiðistjórn varpi skugga á störf þess sem allir vita að eru erfið og oft alls ekki hættulaus?

Framleiðsla á næringarríkum, góðum mat í heimi þar sem mjög víða er mikill matarskortur og annars staðar mikil og vaxandi eftirspurn eftir hollri fæðu. Er þetta ekki eitthvað sem við eigum virkilega að gleðjast yfir og vera montin af?

Jú! Íslenskur sjávarútvegur og fiskvinnsla á að sjálfsögðu að vera skrautfjöður í íslensku atvinnulífi. Og ekki bara það. Heldur líka rosalega jákvæður þáttur í sjálfsmynd okkar og ímynd og sögu og menningu. Þannig hefur það verið og á auðvitað að vera áfram. Þetta er atvinnugreinin sem kom okkur almennilega á lappirnar og við höfum þess vegna talað, skrifað og sungið um og glaðst yfir og verið þakklát fyrir og stolt af „hafsins hetjum" sem „sækja gull í greipar Ægis". Við eigum að njóta þess að gera þetta áfram. Þetta hefur nefnilega verið og er mjög jákvætt og afskaplega mikilvægt fyrir menningu okkar og sjálfsmynd.

Það er því alveg hábölvað og gjörsamlega óþolandi hvernig deilurnar og umræðurnar endalausu og neikvæðu um stjórn fiskveiða hafa vegið að ímynd allra þeirra starfsstétta sem tengjast sjávarútvegi og bæja og byggðarlaga sem mikið byggja á útgerð og fiskvinnslu. Og þetta er ekki bara hundleiðinlegt og rosalega ósanngjarnt heldur kostar þetta okkur örugglega fullt af peningum og tækifærum.

Það er löngu tímabært að þessu linni. Við verðum að fara að finna jafnvægið á milli hagsmuna þeirra sem starfa beint í sjávarútvegi, þ.e. fiskverkunarfólks, sjómanna og útgerðarmanna og þeirra sem hafa atvinnu og hagsmuni af því að þjónusta sjávarútveginn og tengjast honum mikið með einhverjum hætti og svo allra þeirra sem búa í þessu landi og hvorki veiða fisk, flaka hann, flytja né selja en eiga þó að sjálfsögðu kláran rétt á að njóta góðs af þessari stórkostlegu auðlind sem fiskistofnarnir við landið okkar eru. Hagsmunir alls þessa fólks, allra Íslendinga, fara að langmestu leyti saman þó að umræðan og deilurnar bendi oftast hreint ekki til þess. Ábyrg og sjálfbær nýting fiskistofnanna er algjört grundvallaratriði. Allir tapa mjög miklu ef þess er ekki gætt. Of mikill og óþarfur kostnaður við veiðar og vinnslu er engum til hagsbóta til lengri tíma litið. Góð laun og nægilegur arður til þeirra sem starfa í sjávarútvegi og reka fyrirtækin dregur atgervisfólk að greininni og það kemur okkur öllum auðvitað mjög mikið til góða.

Getum við virkilega ekki fundið rétta jafnvægið og taktinn í þessu og notið þess og verið stolt af að eiga saman glæsilegan sjávarútveg og söguna og alla menninguna sem tengist honum svo mikið? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta eru allt saman falleg orð almenns eðlis.

Er hver er stefna þessa flokks í sjávarútvegsmálum?

Veiðigjald eða uppboðsleiðn?

Jón Þórhallsson, 3.1.2013 kl. 15:14

2 identicon

Sjálfbærni, hagkvæmni og sanngirni hljóta að eiga að vera leiðarljósin. Skapa arð og skipta honum en sóa ekki með offjárfestingu eða óhagkvæmni sem leiðir af mikilli rekstraróvissu. Óvissan sem greinin býr við er mikil af völdum náttúrunnar og verður að gæta þess að hún aukist ekki mikið af manna völdum. Greinin þarf að draga að sér fólk og fé annars leitar það annað. Þar skipta kjör og arður máli en einnig góð ímynd og starfsánægja. Það er glórulaust að tala þessa flottu atvinnugrein niður. Það kostar okkur ekki bara beinharða peninga heldur vegur það einnig að mikilvægum og jákvæðum þætti í menningu okkar og sögu. Það er mikilsvirði að eiga hetjur og fyrirmyndir sem skara ekki fram úr i vopnaburði heldur í því að draga björg í bú. Það eigum við að meta og varðveita.

 Bestu kveðjur,

Árni Múli

Árni Múli Jónasson (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband