Um fulltrúa í fulltrúalýðræði

Fulltrúalýðræði eins og það sem við höfum hér á landi við stjórn ríkis og sveitarfélaga byggist á því að almenningur velur fulltrúa sína, sem bjóða sig fram undir nafni stjórnmálaflokka, til að fara með vald fyrir sína hönd og í sína þágu. Það er því mjög mikilvægt að vanda það val.

Ég var einhvern tímann spurður að því hvort það væru mikil átök á milli stjórnmálaflokkanna í bæjarstjórninni á Akranesi. Ég sagði þá að mér fyndist það alls ekki þó að stundum væri fólk að takast svolítið á og þvarga eftir einhverjum flokkslínum. Ég sagði þá líka að ég væri alls ekki viss um að ég gæti getið mér rétt til um í hvaða flokki flestir fulltrúarnir væru ef ég hefði ekki lesið mér til um það en ég gæti þó sennilega getið mér réttilega til um að þrír fulltrúanna fylgdu stjórnmálastefnu sem byggðist á félagshyggju en hjá öðrum hefði ég enn ekki greint neina sérstaka stefnu. Ég tók þó fram þá að það væri ekki að marka þetta því að ég hefði ekki mikla reynslu ennþá.

Eftir rúmlega tveggja ára starfsreynslu myndi ég þó svara eins ef ég yrði spurður en þó sennilega með þeirri viðbót að ég myndi segjast telja að a.m.k. tveir eða þrír fulltrúanna sem hefðu boðið sig fram undir merkjum einhvers konar félagshyggju ættu miklu betur heima í flokki sem legði áherslu á einstaklingshyggju. En það skiptir þó ekki svo miklu máli þegar allt kemur til alls þó að vissulega felist í því veruleg vanvirðing við kjósendur og lýðræðið. Það eru nefnilega allt önnur atriði sem ráða langmestu um hvort einstaklingur er gagnlegur samfélagi sínu sem fulltrúi í bæjarstjórn. Þar skiptir hugarfar einstaklingsins höfuðmáli en ekki við hvaða bókstaf hann krossar í kjörklefanum á fjögurra ára fresti eða á hvaða lista hann hefur látið setja nafnið sitt.

Það er alveg bráðnauðsynlegt að til setu í bæjarstjórn veljist stórhuga fólk sem hefur metnað fyrir hönd samfélagsins og vilja til að hvetja og styðja jákvæð og uppbyggileg öfl, félög, stofnanir, einstaklinga og fyrirtæki til góðra verka. Fólk sem hefur kjark til að láta ekki hrekjast undan þrýstingi, nöldri og niðurrifi og vill sýna því sem vel er gert stuðning og áhuga í orði og verki, m.a. með því að mæta á fundi og samkomur. Sem betur fer er fullt af þannig kröftugu, kjarkmiklu og jákvæðu fólki í samfélaginu. Það veit ég vegna þess að ég hef fengið að kynnast því svo mörgu í starfi mínu. Viðfangsefnið er að fá þannig fólk til að gefa kost á sér til setu í bæjarstjórn.

Það er því mjög mikilvægt að almenningur vandi vel valið á fulltrúum sínum og fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald. Umræða og ákvarðanataka sem stjórnast of mikið af þröngsýni og neikvæðni og einhvers konar tortryggni eða jafnvel fordómum er ekki bara mjög skaðleg hagsmunum almennings heldur afskaplega leiðinleg og orkufrek. Þeirri orku er mun betur til annars varið.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband