Almannahagsmunir, sérhagsmunir og góð og vond hagsmunagæsla

Stjórnmálamenn tala oft um almannahagsmuni og hvað þeim sé umhugað um þá. Það er þó ekki alltaf vel ljóst hvernig þeir skilja það góða orð en ég held að það eigi að skilja það sem skyldu pólitíkusa til að stefna að því sem er samfélaginu í heild fyrir bestu og nota almannafé þannig og ekki öðruvísi. Það þýðir líka að þeir eiga ekki að gæta sérhagsmuna og draga taum einstaklinga eða tiltekinna hagsmunahópa.

Í lögum segir að sveitarfélög skuli sinna tilteknum verkefnum, s.s. rekstri skóla og þjónustu við aldrað og fatlað fólk og stuðningi við þá sem standa höllum fæti félagslega og fjárhagslega. Sveitarfélög hafa þó nokkurt svigrúm um hvernig þau gera þetta og auðvitað eru áherslurnar nokkuð mismunandi og ráðast ekki síst af því hversu rík félagshyggjan eða einstaklingshyggjan er í huga og eðli þeirra bæjarfulltrúa sem með valdið fara á hverjum stað hverju sinni en allt á þetta þó alltaf að vera í þágu almannahagsmuna og einskis annars. Það er síðan á valdi sveitarstjórna að ákveða hvaða önnur verkefni þau taka að sér sem varða íbúa þeirra og ekki er sinnt af öðrum lögum samkvæmt. Hvaða verkefnum af þessu tagi og hversu mörgum og miklum sveitarfélög ákveða að sinna og styðja við ræðst að sjálfsögðu töluvert af efnum og aðstæðum á hverjum stað á hverjum tíma og ekki síður af áhuga og áherslum bæjarfulltrúanna. Eru þeir félagshyggjusinnaðir eða einstaklingshyggjumenn eða jafnvel svokallaðir fyrirgreiðslupólitíkusar sem byggja pólitíska stöðu sína og stuðning á þjónustu við tiltekna sérhagsmuni, ljóst en þó oftar leynt?

Slík verkefni þurfa þó að skarast verulega við almannahagsmuni til að réttlætanlegt sé að leggja almannafé til þeirra. Gott dæmi um slíka skörun er ýmiss konar tómstundastarf fyrir börn og ungmenni og íþróttastarf sem er til þess fallið að bæta líkamlega og andlega heilbrigði. Það eru miklir almannahagsmunir af því að allir hafi greiðan aðgang að heilsusamlegri hreyfingu fyrir lágt gjald og alveg sérstaklega börn og ungmenni. Ýmiss konar þroskandi menningarstarf er annað slíkt dæmi um almannahagsmuni og auðvitað eru dæmin miklu fleiri. Eitt afbrigði af sérhagsmunum má kalla „stofnanagæslu“. Hún felst í því að stjórnendur stofnana sem þjóna almenningi taka hagsmuni stofnana sinna fram yfir heildarhagsmuni ef þeir telja, með réttu eða röngu, að þeir fari ekki að öllu leyti saman. Slíkir stjórnendur eru mjög uppteknir af samkeppni og eru tregir til allra breytinga og samstarfs sem þeir óttast að geti hugsanlega ógnað „samkeppnisstöðu“ þeirra eða stofnana þeirra. Þröngsýni af þessu tagi er afar skaðleg hagsmunum almennings og alveg sérstaklega ef hlutaðeigandi stjórnendur hafa pólitíska stöðu til að geta viðhaldið þessu.

Og svo eru ýmiss konar félög og áhugaklúbbar sem veita þeim sem þar taka þátt mikla og margvíslega uppbyggingu og ánægju sem þeir hafa að sjálfsögðu rétt á að njóta og er mjög jákvætt á allan hátt. Ef hins vegar litlir eða engir almannahagsmunir eru af þeim er að sjálfsögðu ekki réttlætanlegt að nýta almannafé til að greiða kostnað sem því fylgir. Þarna er þó ekki alltaf auðvelt að greina á milli og því er afar mikilvægt að bæjarfulltrúar hafi góða dómgreind og kjark til að gera það sem rétt er.

Þeir sem hafa sérhagsmuni af meðferð og afgreiðslu mála reyna að sjálfsögðu að beita bæjarfulltrúa þrýstingi til að ná sínu fram. Og stundum hafa bæjarfulltrúarnir sjálfir eða einhverjir þeim tengdir, s.s. maki eða ættingjar, sérhagsmuni af afgreiðslu mála í bæjarstjórn. Það á t.d. við þegar félag eða fyrirtæki er í eigu bæjarfulltrúa eða maka hans, foreldra, systkina eða barna eða eitthvert þeirra gegnir stjórnunarstarfi í fyrirtæki sem tengist verulega máli sem bæjarstjórn hefur til meðferðar og auðvitað alveg sérstaklega ef viðkomandi fyrirtæki sækist eftir samningum eða viðskiptum við bæinn.

Til að reyna að koma í veg fyrir að bæjarfulltrúar láti slíka sérhagsmuni ráða afstöðu sinni og skaði þar með almannahagsmunina margnefndu hafa verið sett lög og reglur varðandi vanhæfi sem mæla fyrir um að þegar aðstæður eru þannig að draga megi óhlutdrægni bæjarfulltrúa í efa með réttu skuli hann ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða afgreiðslu máls. En þetta nær því miður alls ekki alltaf nægilega langt. Það ræðst nefnilega mjög mikið af hugarfari pólitískra fulltrúans hversu vel þessar reglur duga til að verja hagsmuni almennings. Það sýnir vel sagan af stjórnmálamanninum sem einnig var umsvifamikill í viðskiptum og sat því í mörgum stjórnum og nefndum og hafði persónulega hagsmuni hér og þar. Hann var því oft vanhæfur til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu mála og var sjálfur alveg klár á því. Hann hafði því jafnan þann háttinn á að segja fundarritara að bóka að hann hefði yfirgefið fund vegna vanhæfis en sat þó sem fastast og fylgdist með umræðu og ákvörðunum. Og hann var þekktur fyrir að láta aðra njóta eða gjalda eftir því sem hann taldi sig hafa notið eða goldið afstöðu þeirra í öðrum málum. Sumir pólitíkusar standa alls ekki vörð um almannahagsmuni, heldur þarf almenningur að verja hagsmuni sína fyrir þeim.

 

Hæfisreglur eru því alls engin töfralausn þó að þær séu mikilvægar og þær ber að virða og ekki aðeins í orði heldur aðallega á borði. Það er hægt að hafa áhrif og beita aðra þrýstingi með ýmsum hætti og ekki alltaf mjög ljósum, því að enginn vill jú gangast við spillingu sinni.

Og að lokum nokkur orð um annars konar hagsmunagæslu. Sveitarfélög eiga oft í eða aðild að ýmsum fyrirtækjum, sjóðum, samtökum og félögum. Stundum getur þar verið um mjög mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir alla íbúa þeirra. Í stjórnum slíkra fyrirtækja, félaga og samtaka er stundum verið að fjalla um mjög flókin viðfangsefni sem varða gríðarmikla hagsmuni og er Orkuveita Reykjavíkur mjög skýrt dæmi um það. Það er því afar mikið hagsmunamál fyrir íbúa sveitarfélags að fulltrúar þess í stjórn slíkra stofnana búi yfir mikilli þekkingu og stundum allnokkuð sérhæfðri til að geta staðið vel vörð um hagsmuni sveitarfélagsins. Seta í stjórn svona fyrirtækja og félaga er oft ágætlega launuð og eins þykir sumum upphefð af því að sitja þar. Það er því veruleg hætta á að slík stjórnarseta verði bitlingur sem stjórnmálamenn úthluta sjálfum sér eða hverjum öðrum í stað þess að fá einstaklinga úr samfélaginu sem hæfastir eru vegna þekkingar sinnar og reynslu til að gæta þar hagsmuna sveitarfélagsins.

Stjórnmálamenn hafa missterk bein og eru mismerkilegir eins og gengur og standast freistingarnar misvel. Það er því mjög mikilvægt að almenningur fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald.


 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband