Pólitíkin og góð og vond stjórnsýsla

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á hvað það er sem einkennir góða og vonda stjórnsýslu og hverjar eru orsakir og afleiðingar þess hvor leiðin þar er farin. Ég hef unnið nokkuð lengi í íslenska stjórnkerfinu, hjá ríki og sveitarfélagi og kynnst ýmsu þar af eigin raun. Þá varð þessi áhugi til þess að ég skrifaði lokaritgerð í framhaldsnámi í lögfræði um spillingu. Ég er sannfærður um að það sé bráðnauðsynlegt að allir velti þessi málum fyrir sér og veiti þeim sem treyst er til að gæta hagsmuna almennings, stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu, virkt aðhald að þessu leyti. Ég þreytist seint á að segja skoðun mína á þessum málum og eru einhverjir örugglega orðnir hundleiðir á að hlusta á það en ég get samt ekki stillt mig um að fjalla svolítið um þessi mikilvægu mál hér.

Góð stjórnsýsla í þágu almennings þrífst því aðeins að pólitíkusar stilli sig vel um að nota vald sitt og áhrif og þrýsting til að hafa áhrif á ákvarðanir og verklag í ópólitíska stjórnkerfinu. Til að geta það þarf stjórnmálamaður oft að hafa sterk bein því að hann er sjálfur undir margvíslegum þrýstingi frá einstaklingum og/eða hagsmunahópum sem vilja beita honum fyrir sig. Sveitarstjórnarmenn hafa vald til að móta stefnu, leggja línur og taka ákvarðanir á formlegum fundum í ráðum, nefndum og stjórnum. Það er síðan hlutverk hins ópólitíska stjórnkerfis og þeirra sem þar starfa að hrinda þeim í framkvæmd. Það er líka hlutverk þeirra sem ábyrgð bera í hinu ópólitíska stjórnkerfi, en alls ekki pólitíkusanna, að ákveða hvernig best er skipa starfsfólki til verka eftir hæfni hvers og eins og haga verklagi þannig að almenningur fái sem besta þjónustu. Það er afar mikilvægt að stjórnmálamenn skilji þetta og virði. Sem betur fer er það svo að margir gera það, aðrir hvorki skilja þetta né virða og of margir skilja þetta en virða alls ekki.

Í íslensku samfélagi er algengast að vegið sé gegn þessari mikilvægu aðgreiningu pólitíkur og ópólitískrar stjórnsýslu með afskiptum pólitíkusa af ráðningum í störf í ópólitíska stjórnkerfinu eða ákvörðunum varðandi verkaskiptingu og skipan einstakra starfsmanna þar (stöðuhækkanir o.þ.h.). Reynsla mín af stjórnsýslustörfum styður að sú sé raunin. Þar sem vel er að verki staðið láta stjórnmálamenn þá sem bera ábyrgð á daglegri stjórn hins ópólitíska stjórnkerfis ráða því hvernig starfsfólki er skipað til verka og gera aðeins þá kröfu til þeirra að hæfni einstakra starfsmanna ráði verkaskiptingu og framgangi þeirra í starfi. Þar sem illa er að þessu staðið beita stjórnmálamenn völdum sínum, áhrifum og þrýstingi til að hafa áhrif á hverjir eru ráðnir til starfa hjá hinu ópólitíska stjórnkerfi og hvar einstökum starfsmönnum er skipað til verka. Stundum telja hlutaðeigandi stjórnmálamenn sig vita best um hæfni og vanhæfni einstakra starfsmanna í stjórnkerfinu og auðvitað láta þeir alltaf í veðri vaka að afstaða þeirra ráðist af þessu og engu öðru því að enginn vill jú gangast við spillingu sinni. En þegar grannt er skoðað eru afskipti af þessu tagi í raun langoftast einhvers konar greiðvikni sem byggist á tengingum af einhverjum toga (skyldleiki, vinfengi, stjórnmálaflokkur/-skoðun, aðild að félagi o.fl.), við hlutaðeigandi einstakling eða þá óvild gagnvart honum eða öðrum sem hlut eiga að máli. Og í litlum samfélögum er nálægðin mikil og tengingarnar óhjákvæmilega miklar og margvíslegar. Í einkalífi fólks er greiðvikni við vini og ættrækni góð og falleg en í stjórnmálum og stjórnsýslu er þetta afskaplega vont og oftast hrein og klár spilling.

Um ráðningar í störf hjá ríki og sveitarfélögum gilda lög og ítarlegar reglur sem ætlað er að stuðla að því að einungis hæfni einstaklinga til að gegna starfi ráði því hverjir fá störfin. Það er lögbrot að láta einstakling gjalda eða njóta skyldleika, (ó)vináttu eða annarra slíkra tenginga eða skoðana sinna þegar ráðið er í starf. Það er því grafalvarlegt mál þegar forstöðumaður stofnunar og/eða stjórnmálamaður vill ekki skilja eða virða þetta regluverk. Nákvæmlega það sama á við þegar ákvarðanir eru teknar um skipan starfsmanna til verka og stöðuhækkanir. Ef þessar reglur eru ekki virtar er ekki einungis um að ræða alvarlegt brot gagnvart viðkomandi einstaklingum. Svona brot vega nefnilega einnig mjög alvarlega gegn hagsmunum alls almennings sem á skýlausan rétt á því að hæfasta fólkið, sem kostur er á hverju sinni, veljist til starfa fyrir hann. Og að sjálfsögðu er það svo að ef fólk hefur ekki trú á því að ráðningar í störf í hinu ópólitíska stjórnkerfi ráðist ekki einungis af hæfni, heldur af tengingum og greiðvikni er mjög mikil hætta á því að hæft fólk sækist síður eftir störfunum. Og ef starfsfólk í hinu ópólitíska stjórnkerfi veit af reynslu að framgangur þess í starfi ræðst ekki af hæfni þess og dugnaði heldur af tengingum eða velvild eða óvild pólitíkusa er mikil hætta á að það dragi úr framtaki þess og metnaði og þar með drifkrafti alls stjórnkerfisins. Það getur nefnilega þá verið vænlegri kostur fyrir starfsmann að bíða rólegur og vona að hann njóti þess þegar einhver honum tengdur eða velviljaður fær pólitískt vald í stað þess að sanna hæfni sína með framtaki, dugnaði og kjarki. Stjórnmálamenn bera því mikla ábyrgð á að fara þannig með þau völd og áhrif sem þeir hafa í krafti stöðu sinnar að svona hugarfar myndist ekki í stjórnkerfinu. Stjórnmálamenn hafa þó að sjálfsögðu missterk bein og eru mismerkilegir eins gengur og standast freistingarnar misvel. Það er því mjög mikilvægt að almenningur fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband