Lýðræði, upplýsingaréttur og forræðishyggjan ferlega.

Allir pólitíkusar segjast vita og viðurkenna að lýðræðið standi og falli með því að skoðana- og tjáningarfrelsi almennings sé virt. Rétturinn til fullnægjandi upplýsinga er óaðskiljanlegur hluti af tjáningar- og skoðanafrelsinu og veitir því það innihald sem það á og þarf að hafa. Ef fólk fær ekki fullnægjandi og réttar upplýsingar til að byggja á er réttur þess til til að mynda sér skoðanir og tjá sig um þær mjög mikið skertur og jafnvel að engu gerður. Og gagnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu sem pólitíkusar tala svo oft um og segja, og það með réttu, að sé svo rosalega eftirsóknarvert stendur og fellur með því að upplýsingaréttur almennings sé virtur og ekki bara í orði heldur aðallega í verki. Það er lítill vandi fyrir stjórnmálamenn að tala og skrifa fallega um þetta. Þeir þurfa hins vegar oft að búa yfir dágóðum slatta af vilja og kjarki og heilindum til að virða þetta í verki.  

Það getur nefnilega verið afar freistandi fyrir svokallaða valdapólitíkusa sem stunda sérhagsmunagæslu af einhverju tagi og þá sem aðhyllast forræðishyggju og treysta því  sjálfum sé miklu betur en almenningi til að vita hvað honum er fyrir bestu eða þá bara blessaða besservisserana okkar sem allt þykjast best vita að skammta fólki upplýsingar. Annars getur það tekið upp á því að nýta skoðana- og tjáningarfrelsi sitt til að hugsa og segja eitthvað sem þeim hugnast ekki og jafnvel nota lýðræðislegt vald sitt, þ.e. atkvæðisréttinn, til að ákveða eitthvað sem samræmist ekki sérhagsmunum valdapólitkusanna eða skoðunum forræðishyggjusinna og besservissera.

Mér finnst það brjóta mjög alvarlega gegn upplýsingarétti og gagnsæi í stjórnmálum að ætla að hafa þann rétt af almenningi í þessu landi að leyfa honum að sjá hvað gæti boðist í samningi um aðild að Evrópusambandinu. Hverjir væru kostir og gallar, áhættur, tækifæri og ógnanir. Þannig og ekki öðru vísi getur almenningur nýtt að fullu þau mannréttindi sín að mynda sér skoðun á þessu mikla hagsmunamáli fyrir þessa þjóð í nútíð og framtíð á réttum og fullnægjandi grundvelli og skiptast á skoðunum og nýta svo lýðræðislegan rétt sinn til að ákveða hvað gert verður.

Ég hef sjálfur eins og svo margir aðrir á þessari stundu ekki grænan grun um hvort ég vil að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Ég vil fá að taka ákvörðun um það þegar ég hef fengið fullnægjandi upplýsingar til þess. Þá getur m.a.s. verið að ég ákveði að skila auðu eða greiða ekki atkvæði. Það mun ég ákveða þegar þar að kemur eins og ég á rétt á.

Ég vil hins vegar alls ekki að valdapólitíkusar eða forræðishyggjusinnar eða besservisserar ákveði þetta fyrir mig.

  

Starfsfólk, kvóti og stóriðja

Fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af störfum í sjávarútvegi og stóriðju þarf að þola það að neikvæð umræða og harðvítugar deilur um stjórn fiskveiða og kvótakerfið, verksmiðjur og umhverfismál varpi skugga á störf þess, starfsánægju og ímynd. Þetta hefur lengi verið svona og hlýtur að vera afskaplega þreytandi og pirrandi fyrir þetta fólk. Það hefur langoftast mjög litlu eða engu ráðið um ákvarðanir sem hafa verið teknar í þessum málum eða leikreglur sem hafa verið settar af stjórnvöldum en mætir alla daga og raunar mjög oft líka á kvöldin og nóttunni í vinnuna til að skila sínu og eiga fyrir rafmagnsreikningunum og súrmjólkinni og skólatöskum handa krökkunum.

En linnulítil og endalaus neikvæð umræða um þessar mikilvægu atvinnugreinar er ekki bara mjög leiðinleg og ósanngjörn fyrir það fólk sem í þeim starfar og dregur úr starfsánægjunnni. Þessi neikvæði tónn í umræðunni er klárlega skaðlegur hagsmunum okkar allra. Þar með er ég sko alls ekki að mælast til þess að allir séu sáttir við allt sem rætt er og ákveðið í sambandi við stjórn fiskveiða og stóriðju. Ég er það alls ekki sjálfur og ég veit að fullt af því fólki sem vinnur fyrir sjálfu sér og fjölskyldum sínum um borð í bátum eða í fiskvinnslum eða verksmiðjum er það hreint ekki heldur. En það á rétt á því að störf þess og hagsmunir njóti virðingar. Þannig verður það ekki bara sáttara við lífið og tilveruna og hamingjusamara og það er nú akkúrat það sem við sækjumst öll eftir. Það fær líka meiri löngun og þor til að mennta sig og verður öruggara i baráttunni fyrir hagsmunum sínum, bættum kjörum og starfsumhverfi og fær þar með stærri og betri sneiðar af þeim kökum sem bakaðar eru í fiskvinnslum, bátum og verksmiðjum. Og Það viljum við langflest sjá gerast jafnvel þó að við mígum aldrei sjálf í saltan sjó og flökum hvorki fisk né bræðum ál.

Tónn í umræðu um landsins gagn og nauðsynjar skiptir miklu máli og þar hafa stjórnmálamennirnir okkar mikil áhrif og bera mikla ábyrgð.


Svolítið um sjávarútveg, sjómenn, fiskverkunarfólk o.fl.

Sjálfbær, hagkvæm og arðbær nýting náttúruauðlindar. Ættum við ekki að vera mjög stolt af því? Ég veit að aðrar fiskveiðiþjóðir öfunda okkur a.m.k. mikið vegna þess og horfa mjög til okkar. Þeim hefur nefnilega langfæstum tekist þetta og satt að segja eiginlega engum betur en okkur.

Og allir viðurkenndir mælikvarðar sýna, svo ekki verður um villst, að sjómennirnir okkar eru einhverjir þeir duglegustu og bestu í heimi og fiskverkunarfólkið okkar er frábært. Hæfni þessa fólks og þekking er viðurkennd um allan heim. Á þetta fólk ekki skilið að njóta sannmælis? Á það lengi enn að þurfa að þola að neikvæð umræða um fiskveiðistjórn varpi skugga á störf þess sem allir vita að eru erfið og oft alls ekki hættulaus?

Framleiðsla á næringarríkum, góðum mat í heimi þar sem mjög víða er mikill matarskortur og annars staðar mikil og vaxandi eftirspurn eftir hollri fæðu. Er þetta ekki eitthvað sem við eigum virkilega að gleðjast yfir og vera montin af?

Jú! Íslenskur sjávarútvegur og fiskvinnsla á að sjálfsögðu að vera skrautfjöður í íslensku atvinnulífi. Og ekki bara það. Heldur líka rosalega jákvæður þáttur í sjálfsmynd okkar og ímynd og sögu og menningu. Þannig hefur það verið og á auðvitað að vera áfram. Þetta er atvinnugreinin sem kom okkur almennilega á lappirnar og við höfum þess vegna talað, skrifað og sungið um og glaðst yfir og verið þakklát fyrir og stolt af „hafsins hetjum" sem „sækja gull í greipar Ægis". Við eigum að njóta þess að gera þetta áfram. Þetta hefur nefnilega verið og er mjög jákvætt og afskaplega mikilvægt fyrir menningu okkar og sjálfsmynd.

Það er því alveg hábölvað og gjörsamlega óþolandi hvernig deilurnar og umræðurnar endalausu og neikvæðu um stjórn fiskveiða hafa vegið að ímynd allra þeirra starfsstétta sem tengjast sjávarútvegi og bæja og byggðarlaga sem mikið byggja á útgerð og fiskvinnslu. Og þetta er ekki bara hundleiðinlegt og rosalega ósanngjarnt heldur kostar þetta okkur örugglega fullt af peningum og tækifærum.

Það er löngu tímabært að þessu linni. Við verðum að fara að finna jafnvægið á milli hagsmuna þeirra sem starfa beint í sjávarútvegi, þ.e. fiskverkunarfólks, sjómanna og útgerðarmanna og þeirra sem hafa atvinnu og hagsmuni af því að þjónusta sjávarútveginn og tengjast honum mikið með einhverjum hætti og svo allra þeirra sem búa í þessu landi og hvorki veiða fisk, flaka hann, flytja né selja en eiga þó að sjálfsögðu kláran rétt á að njóta góðs af þessari stórkostlegu auðlind sem fiskistofnarnir við landið okkar eru. Hagsmunir alls þessa fólks, allra Íslendinga, fara að langmestu leyti saman þó að umræðan og deilurnar bendi oftast hreint ekki til þess. Ábyrg og sjálfbær nýting fiskistofnanna er algjört grundvallaratriði. Allir tapa mjög miklu ef þess er ekki gætt. Of mikill og óþarfur kostnaður við veiðar og vinnslu er engum til hagsbóta til lengri tíma litið. Góð laun og nægilegur arður til þeirra sem starfa í sjávarútvegi og reka fyrirtækin dregur atgervisfólk að greininni og það kemur okkur öllum auðvitað mjög mikið til góða.

Getum við virkilega ekki fundið rétta jafnvægið og taktinn í þessu og notið þess og verið stolt af að eiga saman glæsilegan sjávarútveg og söguna og alla menninguna sem tengist honum svo mikið? 


Um fulltrúa í fulltrúalýðræði

Fulltrúalýðræði eins og það sem við höfum hér á landi við stjórn ríkis og sveitarfélaga byggist á því að almenningur velur fulltrúa sína, sem bjóða sig fram undir nafni stjórnmálaflokka, til að fara með vald fyrir sína hönd og í sína þágu. Það er því mjög mikilvægt að vanda það val.

Ég var einhvern tímann spurður að því hvort það væru mikil átök á milli stjórnmálaflokkanna í bæjarstjórninni á Akranesi. Ég sagði þá að mér fyndist það alls ekki þó að stundum væri fólk að takast svolítið á og þvarga eftir einhverjum flokkslínum. Ég sagði þá líka að ég væri alls ekki viss um að ég gæti getið mér rétt til um í hvaða flokki flestir fulltrúarnir væru ef ég hefði ekki lesið mér til um það en ég gæti þó sennilega getið mér réttilega til um að þrír fulltrúanna fylgdu stjórnmálastefnu sem byggðist á félagshyggju en hjá öðrum hefði ég enn ekki greint neina sérstaka stefnu. Ég tók þó fram þá að það væri ekki að marka þetta því að ég hefði ekki mikla reynslu ennþá.

Eftir rúmlega tveggja ára starfsreynslu myndi ég þó svara eins ef ég yrði spurður en þó sennilega með þeirri viðbót að ég myndi segjast telja að a.m.k. tveir eða þrír fulltrúanna sem hefðu boðið sig fram undir merkjum einhvers konar félagshyggju ættu miklu betur heima í flokki sem legði áherslu á einstaklingshyggju. En það skiptir þó ekki svo miklu máli þegar allt kemur til alls þó að vissulega felist í því veruleg vanvirðing við kjósendur og lýðræðið. Það eru nefnilega allt önnur atriði sem ráða langmestu um hvort einstaklingur er gagnlegur samfélagi sínu sem fulltrúi í bæjarstjórn. Þar skiptir hugarfar einstaklingsins höfuðmáli en ekki við hvaða bókstaf hann krossar í kjörklefanum á fjögurra ára fresti eða á hvaða lista hann hefur látið setja nafnið sitt.

Það er alveg bráðnauðsynlegt að til setu í bæjarstjórn veljist stórhuga fólk sem hefur metnað fyrir hönd samfélagsins og vilja til að hvetja og styðja jákvæð og uppbyggileg öfl, félög, stofnanir, einstaklinga og fyrirtæki til góðra verka. Fólk sem hefur kjark til að láta ekki hrekjast undan þrýstingi, nöldri og niðurrifi og vill sýna því sem vel er gert stuðning og áhuga í orði og verki, m.a. með því að mæta á fundi og samkomur. Sem betur fer er fullt af þannig kröftugu, kjarkmiklu og jákvæðu fólki í samfélaginu. Það veit ég vegna þess að ég hef fengið að kynnast því svo mörgu í starfi mínu. Viðfangsefnið er að fá þannig fólk til að gefa kost á sér til setu í bæjarstjórn.

Það er því mjög mikilvægt að almenningur vandi vel valið á fulltrúum sínum og fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald. Umræða og ákvarðanataka sem stjórnast of mikið af þröngsýni og neikvæðni og einhvers konar tortryggni eða jafnvel fordómum er ekki bara mjög skaðleg hagsmunum almennings heldur afskaplega leiðinleg og orkufrek. Þeirri orku er mun betur til annars varið.

 

 

 

 

 


Almannahagsmunir, sérhagsmunir og góð og vond hagsmunagæsla

Stjórnmálamenn tala oft um almannahagsmuni og hvað þeim sé umhugað um þá. Það er þó ekki alltaf vel ljóst hvernig þeir skilja það góða orð en ég held að það eigi að skilja það sem skyldu pólitíkusa til að stefna að því sem er samfélaginu í heild fyrir bestu og nota almannafé þannig og ekki öðruvísi. Það þýðir líka að þeir eiga ekki að gæta sérhagsmuna og draga taum einstaklinga eða tiltekinna hagsmunahópa.

Í lögum segir að sveitarfélög skuli sinna tilteknum verkefnum, s.s. rekstri skóla og þjónustu við aldrað og fatlað fólk og stuðningi við þá sem standa höllum fæti félagslega og fjárhagslega. Sveitarfélög hafa þó nokkurt svigrúm um hvernig þau gera þetta og auðvitað eru áherslurnar nokkuð mismunandi og ráðast ekki síst af því hversu rík félagshyggjan eða einstaklingshyggjan er í huga og eðli þeirra bæjarfulltrúa sem með valdið fara á hverjum stað hverju sinni en allt á þetta þó alltaf að vera í þágu almannahagsmuna og einskis annars. Það er síðan á valdi sveitarstjórna að ákveða hvaða önnur verkefni þau taka að sér sem varða íbúa þeirra og ekki er sinnt af öðrum lögum samkvæmt. Hvaða verkefnum af þessu tagi og hversu mörgum og miklum sveitarfélög ákveða að sinna og styðja við ræðst að sjálfsögðu töluvert af efnum og aðstæðum á hverjum stað á hverjum tíma og ekki síður af áhuga og áherslum bæjarfulltrúanna. Eru þeir félagshyggjusinnaðir eða einstaklingshyggjumenn eða jafnvel svokallaðir fyrirgreiðslupólitíkusar sem byggja pólitíska stöðu sína og stuðning á þjónustu við tiltekna sérhagsmuni, ljóst en þó oftar leynt?

Slík verkefni þurfa þó að skarast verulega við almannahagsmuni til að réttlætanlegt sé að leggja almannafé til þeirra. Gott dæmi um slíka skörun er ýmiss konar tómstundastarf fyrir börn og ungmenni og íþróttastarf sem er til þess fallið að bæta líkamlega og andlega heilbrigði. Það eru miklir almannahagsmunir af því að allir hafi greiðan aðgang að heilsusamlegri hreyfingu fyrir lágt gjald og alveg sérstaklega börn og ungmenni. Ýmiss konar þroskandi menningarstarf er annað slíkt dæmi um almannahagsmuni og auðvitað eru dæmin miklu fleiri. Eitt afbrigði af sérhagsmunum má kalla „stofnanagæslu“. Hún felst í því að stjórnendur stofnana sem þjóna almenningi taka hagsmuni stofnana sinna fram yfir heildarhagsmuni ef þeir telja, með réttu eða röngu, að þeir fari ekki að öllu leyti saman. Slíkir stjórnendur eru mjög uppteknir af samkeppni og eru tregir til allra breytinga og samstarfs sem þeir óttast að geti hugsanlega ógnað „samkeppnisstöðu“ þeirra eða stofnana þeirra. Þröngsýni af þessu tagi er afar skaðleg hagsmunum almennings og alveg sérstaklega ef hlutaðeigandi stjórnendur hafa pólitíska stöðu til að geta viðhaldið þessu.

Og svo eru ýmiss konar félög og áhugaklúbbar sem veita þeim sem þar taka þátt mikla og margvíslega uppbyggingu og ánægju sem þeir hafa að sjálfsögðu rétt á að njóta og er mjög jákvætt á allan hátt. Ef hins vegar litlir eða engir almannahagsmunir eru af þeim er að sjálfsögðu ekki réttlætanlegt að nýta almannafé til að greiða kostnað sem því fylgir. Þarna er þó ekki alltaf auðvelt að greina á milli og því er afar mikilvægt að bæjarfulltrúar hafi góða dómgreind og kjark til að gera það sem rétt er.

Þeir sem hafa sérhagsmuni af meðferð og afgreiðslu mála reyna að sjálfsögðu að beita bæjarfulltrúa þrýstingi til að ná sínu fram. Og stundum hafa bæjarfulltrúarnir sjálfir eða einhverjir þeim tengdir, s.s. maki eða ættingjar, sérhagsmuni af afgreiðslu mála í bæjarstjórn. Það á t.d. við þegar félag eða fyrirtæki er í eigu bæjarfulltrúa eða maka hans, foreldra, systkina eða barna eða eitthvert þeirra gegnir stjórnunarstarfi í fyrirtæki sem tengist verulega máli sem bæjarstjórn hefur til meðferðar og auðvitað alveg sérstaklega ef viðkomandi fyrirtæki sækist eftir samningum eða viðskiptum við bæinn.

Til að reyna að koma í veg fyrir að bæjarfulltrúar láti slíka sérhagsmuni ráða afstöðu sinni og skaði þar með almannahagsmunina margnefndu hafa verið sett lög og reglur varðandi vanhæfi sem mæla fyrir um að þegar aðstæður eru þannig að draga megi óhlutdrægni bæjarfulltrúa í efa með réttu skuli hann ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða afgreiðslu máls. En þetta nær því miður alls ekki alltaf nægilega langt. Það ræðst nefnilega mjög mikið af hugarfari pólitískra fulltrúans hversu vel þessar reglur duga til að verja hagsmuni almennings. Það sýnir vel sagan af stjórnmálamanninum sem einnig var umsvifamikill í viðskiptum og sat því í mörgum stjórnum og nefndum og hafði persónulega hagsmuni hér og þar. Hann var því oft vanhæfur til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu mála og var sjálfur alveg klár á því. Hann hafði því jafnan þann háttinn á að segja fundarritara að bóka að hann hefði yfirgefið fund vegna vanhæfis en sat þó sem fastast og fylgdist með umræðu og ákvörðunum. Og hann var þekktur fyrir að láta aðra njóta eða gjalda eftir því sem hann taldi sig hafa notið eða goldið afstöðu þeirra í öðrum málum. Sumir pólitíkusar standa alls ekki vörð um almannahagsmuni, heldur þarf almenningur að verja hagsmuni sína fyrir þeim.

 

Hæfisreglur eru því alls engin töfralausn þó að þær séu mikilvægar og þær ber að virða og ekki aðeins í orði heldur aðallega á borði. Það er hægt að hafa áhrif og beita aðra þrýstingi með ýmsum hætti og ekki alltaf mjög ljósum, því að enginn vill jú gangast við spillingu sinni.

Og að lokum nokkur orð um annars konar hagsmunagæslu. Sveitarfélög eiga oft í eða aðild að ýmsum fyrirtækjum, sjóðum, samtökum og félögum. Stundum getur þar verið um mjög mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir alla íbúa þeirra. Í stjórnum slíkra fyrirtækja, félaga og samtaka er stundum verið að fjalla um mjög flókin viðfangsefni sem varða gríðarmikla hagsmuni og er Orkuveita Reykjavíkur mjög skýrt dæmi um það. Það er því afar mikið hagsmunamál fyrir íbúa sveitarfélags að fulltrúar þess í stjórn slíkra stofnana búi yfir mikilli þekkingu og stundum allnokkuð sérhæfðri til að geta staðið vel vörð um hagsmuni sveitarfélagsins. Seta í stjórn svona fyrirtækja og félaga er oft ágætlega launuð og eins þykir sumum upphefð af því að sitja þar. Það er því veruleg hætta á að slík stjórnarseta verði bitlingur sem stjórnmálamenn úthluta sjálfum sér eða hverjum öðrum í stað þess að fá einstaklinga úr samfélaginu sem hæfastir eru vegna þekkingar sinnar og reynslu til að gæta þar hagsmuna sveitarfélagsins.

Stjórnmálamenn hafa missterk bein og eru mismerkilegir eins og gengur og standast freistingarnar misvel. Það er því mjög mikilvægt að almenningur fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald.


 

 

 

 

 

 


Pólitíkin og góð og vond stjórnsýsla

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á hvað það er sem einkennir góða og vonda stjórnsýslu og hverjar eru orsakir og afleiðingar þess hvor leiðin þar er farin. Ég hef unnið nokkuð lengi í íslenska stjórnkerfinu, hjá ríki og sveitarfélagi og kynnst ýmsu þar af eigin raun. Þá varð þessi áhugi til þess að ég skrifaði lokaritgerð í framhaldsnámi í lögfræði um spillingu. Ég er sannfærður um að það sé bráðnauðsynlegt að allir velti þessi málum fyrir sér og veiti þeim sem treyst er til að gæta hagsmuna almennings, stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu, virkt aðhald að þessu leyti. Ég þreytist seint á að segja skoðun mína á þessum málum og eru einhverjir örugglega orðnir hundleiðir á að hlusta á það en ég get samt ekki stillt mig um að fjalla svolítið um þessi mikilvægu mál hér.

Góð stjórnsýsla í þágu almennings þrífst því aðeins að pólitíkusar stilli sig vel um að nota vald sitt og áhrif og þrýsting til að hafa áhrif á ákvarðanir og verklag í ópólitíska stjórnkerfinu. Til að geta það þarf stjórnmálamaður oft að hafa sterk bein því að hann er sjálfur undir margvíslegum þrýstingi frá einstaklingum og/eða hagsmunahópum sem vilja beita honum fyrir sig. Sveitarstjórnarmenn hafa vald til að móta stefnu, leggja línur og taka ákvarðanir á formlegum fundum í ráðum, nefndum og stjórnum. Það er síðan hlutverk hins ópólitíska stjórnkerfis og þeirra sem þar starfa að hrinda þeim í framkvæmd. Það er líka hlutverk þeirra sem ábyrgð bera í hinu ópólitíska stjórnkerfi, en alls ekki pólitíkusanna, að ákveða hvernig best er skipa starfsfólki til verka eftir hæfni hvers og eins og haga verklagi þannig að almenningur fái sem besta þjónustu. Það er afar mikilvægt að stjórnmálamenn skilji þetta og virði. Sem betur fer er það svo að margir gera það, aðrir hvorki skilja þetta né virða og of margir skilja þetta en virða alls ekki.

Í íslensku samfélagi er algengast að vegið sé gegn þessari mikilvægu aðgreiningu pólitíkur og ópólitískrar stjórnsýslu með afskiptum pólitíkusa af ráðningum í störf í ópólitíska stjórnkerfinu eða ákvörðunum varðandi verkaskiptingu og skipan einstakra starfsmanna þar (stöðuhækkanir o.þ.h.). Reynsla mín af stjórnsýslustörfum styður að sú sé raunin. Þar sem vel er að verki staðið láta stjórnmálamenn þá sem bera ábyrgð á daglegri stjórn hins ópólitíska stjórnkerfis ráða því hvernig starfsfólki er skipað til verka og gera aðeins þá kröfu til þeirra að hæfni einstakra starfsmanna ráði verkaskiptingu og framgangi þeirra í starfi. Þar sem illa er að þessu staðið beita stjórnmálamenn völdum sínum, áhrifum og þrýstingi til að hafa áhrif á hverjir eru ráðnir til starfa hjá hinu ópólitíska stjórnkerfi og hvar einstökum starfsmönnum er skipað til verka. Stundum telja hlutaðeigandi stjórnmálamenn sig vita best um hæfni og vanhæfni einstakra starfsmanna í stjórnkerfinu og auðvitað láta þeir alltaf í veðri vaka að afstaða þeirra ráðist af þessu og engu öðru því að enginn vill jú gangast við spillingu sinni. En þegar grannt er skoðað eru afskipti af þessu tagi í raun langoftast einhvers konar greiðvikni sem byggist á tengingum af einhverjum toga (skyldleiki, vinfengi, stjórnmálaflokkur/-skoðun, aðild að félagi o.fl.), við hlutaðeigandi einstakling eða þá óvild gagnvart honum eða öðrum sem hlut eiga að máli. Og í litlum samfélögum er nálægðin mikil og tengingarnar óhjákvæmilega miklar og margvíslegar. Í einkalífi fólks er greiðvikni við vini og ættrækni góð og falleg en í stjórnmálum og stjórnsýslu er þetta afskaplega vont og oftast hrein og klár spilling.

Um ráðningar í störf hjá ríki og sveitarfélögum gilda lög og ítarlegar reglur sem ætlað er að stuðla að því að einungis hæfni einstaklinga til að gegna starfi ráði því hverjir fá störfin. Það er lögbrot að láta einstakling gjalda eða njóta skyldleika, (ó)vináttu eða annarra slíkra tenginga eða skoðana sinna þegar ráðið er í starf. Það er því grafalvarlegt mál þegar forstöðumaður stofnunar og/eða stjórnmálamaður vill ekki skilja eða virða þetta regluverk. Nákvæmlega það sama á við þegar ákvarðanir eru teknar um skipan starfsmanna til verka og stöðuhækkanir. Ef þessar reglur eru ekki virtar er ekki einungis um að ræða alvarlegt brot gagnvart viðkomandi einstaklingum. Svona brot vega nefnilega einnig mjög alvarlega gegn hagsmunum alls almennings sem á skýlausan rétt á því að hæfasta fólkið, sem kostur er á hverju sinni, veljist til starfa fyrir hann. Og að sjálfsögðu er það svo að ef fólk hefur ekki trú á því að ráðningar í störf í hinu ópólitíska stjórnkerfi ráðist ekki einungis af hæfni, heldur af tengingum og greiðvikni er mjög mikil hætta á því að hæft fólk sækist síður eftir störfunum. Og ef starfsfólk í hinu ópólitíska stjórnkerfi veit af reynslu að framgangur þess í starfi ræðst ekki af hæfni þess og dugnaði heldur af tengingum eða velvild eða óvild pólitíkusa er mikil hætta á að það dragi úr framtaki þess og metnaði og þar með drifkrafti alls stjórnkerfisins. Það getur nefnilega þá verið vænlegri kostur fyrir starfsmann að bíða rólegur og vona að hann njóti þess þegar einhver honum tengdur eða velviljaður fær pólitískt vald í stað þess að sanna hæfni sína með framtaki, dugnaði og kjarki. Stjórnmálamenn bera því mikla ábyrgð á að fara þannig með þau völd og áhrif sem þeir hafa í krafti stöðu sinnar að svona hugarfar myndist ekki í stjórnkerfinu. Stjórnmálamenn hafa þó að sjálfsögðu missterk bein og eru mismerkilegir eins gengur og standast freistingarnar misvel. Það er því mjög mikilvægt að almenningur fylgist vel með störfum þeirra, orðum og verkum og veiti þeim aðhald.

 

 

 


Mér finnst.

Ég held að langflestir vilji búa í samfélagi þar sem traust ríkir gagnvart stjórnvöldum og milli fólks. Þar sem leitast er við að leysa úr ágreiningi með sanngirni og málamiðlunum. Þar sem borin er virðing fyrir skoðunum og hagsmunum minnihlutahópa. Þar sem minnihlutinn sýnir ábyrgð og meirihlutinn knýr ekki vilja sinn fram í einu og öllu í krafti valds hvað sem tautar og raular. Þar sem besservissmi stjórnmálamanna á ekki upp á pallborðið og forræðishyggja er ekki liðin.  Þar sem sátt frekar en sigur er talin merki um stjórnvisku.  Þetta eru líka einkenni góðs lýðræðis, sem byggist á virðingu fyrir einstaklingum, mannréttindum, jafnræði og sanngirni. Ef okkur finnst þetta eftirsóknarvert eigum við að stefna að þessu með ráðum og dáð og krefjast þess að þeir sem fara með vald fyrir okkar hönd og í okkar þágu tileinki sér þetta hugarfar og beiti þessum aðferðum.

Hernaður er alltaf ömurlegur en skotgrafahernaður er ekki bara ömurlegur heldur sérstaklega árangurslaus. Það á við jafnt í stjórmálum og stríði. Og ofstæki er ekki bara ógeðfellt heldur afskaplega hættulegt.

 

download
 

Myndin er af hermönnum í skotgröfum í  fyrri heimstyrjöldinni en ekki af íslenskum þingmönnum að búa sig undir umræðu um fjárlög eða stjórnskrána eða Evrópusambandið  eða stjórn fiskveiða eða...

 

 




Í lýðræðissamfélagi eru stjórnmálaflokkar tæki en alls ekki tilgangur. Ef þeir er of uppteknir af fortíðinni og því að firra sig ábyrgð á því sem aflaga hefur farið þannig að þeim gengur illa eða ekki að takast á við viðfangsefni samtímans og framtíðarinnar eru þeir gagnslitlir og jafnvel skaðlegir hagsmunum almennings. Og oft er það svo að nýir vendir sópa best. Stefnuskrár stjórnmálaflokka eru mannanna verk og ekki einu sinni klappaðar í stein. Móses kom ekki með þær ofan af fjallinu og samfélagsþróunin tekur stundum mjög lítið tillit til stefnuskránna og kenninga stjórnmálaspekingannna.

moses460

 


Myndin er ekki af formanni
 íslensks stjórnmálaflokks að færa flokksmönnum stefnuskrána, heldur er þetta leikarinn góðkunni Charlton Heston í hlutverki Móses þar sem hann kemur með boðorðin tíu ofan af Sínaífjalli.





Hollusta er oftast góð en flokkshollusta er það alls ekki alltaf. Flokkar eiga ekki að hafa neina hagsmuni. Þeir eiga að vinna að og vernda hagsmuni almennings. Það er því fullt tilefni til vera á varðbergi þegar stjórnmálamenn tönnlast á að „flokkurinn hitt og flokkurinn þetta“. Óhófleg flokkshollusta getur auðveldlega leitt til hugsunarlausrar fylgispektar og stuðnings við sérhagsmuni.

Og foringjadýrkun er alltaf vond. Hún grefur undan lýðræði og mannréttindum og sjálfstæðri hugsun. Sagan kennir okkur þetta. Og svokallaðir „miklir foringjar“ þrífast oft best í ófriði og átökum.  Sátt og samlyndi heillar þá yfirleitt ekki.

Mussolini

 

 



Mussolini taldi sig vera mikinn og snjallan leiðtoga og því trúðu því miður allt of margir. Hökusvipurinn átti víst að sýna stjórnvisku og staðfestu.










Og að lokum. Sátt við fólk og umhverfi, mannréttindi, jöfn tækifæri, virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum, fjölbreytni í mannlífi og atvinnulífi, ábyrgð, gagnsæi og heiðarleiki í stjórnmálum og stjórnsýslu.  Þetta eru einkenni og stoðir góðs og innihaldsríks lýðræðis. Ég styð Bjarta framtíð vegna þess að hjá fólkinu sem þar er að koma saman hef ég fundið mikinn og einlægan vilja og kraft til að byggja  hér upp samfélag sem hvílir á þessum grunnstoðum.


Upplýsingar um starf og stefnu Bjartrar framtíðar má nálgast á http://www.bjortframtid.is/.

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband