Starfsfólk, kvóti og stóriðja

Fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af störfum í sjávarútvegi og stóriðju þarf að þola það að neikvæð umræða og harðvítugar deilur um stjórn fiskveiða og kvótakerfið, verksmiðjur og umhverfismál varpi skugga á störf þess, starfsánægju og ímynd. Þetta hefur lengi verið svona og hlýtur að vera afskaplega þreytandi og pirrandi fyrir þetta fólk. Það hefur langoftast mjög litlu eða engu ráðið um ákvarðanir sem hafa verið teknar í þessum málum eða leikreglur sem hafa verið settar af stjórnvöldum en mætir alla daga og raunar mjög oft líka á kvöldin og nóttunni í vinnuna til að skila sínu og eiga fyrir rafmagnsreikningunum og súrmjólkinni og skólatöskum handa krökkunum.

En linnulítil og endalaus neikvæð umræða um þessar mikilvægu atvinnugreinar er ekki bara mjög leiðinleg og ósanngjörn fyrir það fólk sem í þeim starfar og dregur úr starfsánægjunnni. Þessi neikvæði tónn í umræðunni er klárlega skaðlegur hagsmunum okkar allra. Þar með er ég sko alls ekki að mælast til þess að allir séu sáttir við allt sem rætt er og ákveðið í sambandi við stjórn fiskveiða og stóriðju. Ég er það alls ekki sjálfur og ég veit að fullt af því fólki sem vinnur fyrir sjálfu sér og fjölskyldum sínum um borð í bátum eða í fiskvinnslum eða verksmiðjum er það hreint ekki heldur. En það á rétt á því að störf þess og hagsmunir njóti virðingar. Þannig verður það ekki bara sáttara við lífið og tilveruna og hamingjusamara og það er nú akkúrat það sem við sækjumst öll eftir. Það fær líka meiri löngun og þor til að mennta sig og verður öruggara i baráttunni fyrir hagsmunum sínum, bættum kjörum og starfsumhverfi og fær þar með stærri og betri sneiðar af þeim kökum sem bakaðar eru í fiskvinnslum, bátum og verksmiðjum. Og Það viljum við langflest sjá gerast jafnvel þó að við mígum aldrei sjálf í saltan sjó og flökum hvorki fisk né bræðum ál.

Tónn í umræðu um landsins gagn og nauðsynjar skiptir miklu máli og þar hafa stjórnmálamennirnir okkar mikil áhrif og bera mikla ábyrgð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband