Mér finnst.

Ég held að langflestir vilji búa í samfélagi þar sem traust ríkir gagnvart stjórnvöldum og milli fólks. Þar sem leitast er við að leysa úr ágreiningi með sanngirni og málamiðlunum. Þar sem borin er virðing fyrir skoðunum og hagsmunum minnihlutahópa. Þar sem minnihlutinn sýnir ábyrgð og meirihlutinn knýr ekki vilja sinn fram í einu og öllu í krafti valds hvað sem tautar og raular. Þar sem besservissmi stjórnmálamanna á ekki upp á pallborðið og forræðishyggja er ekki liðin.  Þar sem sátt frekar en sigur er talin merki um stjórnvisku.  Þetta eru líka einkenni góðs lýðræðis, sem byggist á virðingu fyrir einstaklingum, mannréttindum, jafnræði og sanngirni. Ef okkur finnst þetta eftirsóknarvert eigum við að stefna að þessu með ráðum og dáð og krefjast þess að þeir sem fara með vald fyrir okkar hönd og í okkar þágu tileinki sér þetta hugarfar og beiti þessum aðferðum.

Hernaður er alltaf ömurlegur en skotgrafahernaður er ekki bara ömurlegur heldur sérstaklega árangurslaus. Það á við jafnt í stjórmálum og stríði. Og ofstæki er ekki bara ógeðfellt heldur afskaplega hættulegt.

 

download
 

Myndin er af hermönnum í skotgröfum í  fyrri heimstyrjöldinni en ekki af íslenskum þingmönnum að búa sig undir umræðu um fjárlög eða stjórnskrána eða Evrópusambandið  eða stjórn fiskveiða eða...

 

 




Í lýðræðissamfélagi eru stjórnmálaflokkar tæki en alls ekki tilgangur. Ef þeir er of uppteknir af fortíðinni og því að firra sig ábyrgð á því sem aflaga hefur farið þannig að þeim gengur illa eða ekki að takast á við viðfangsefni samtímans og framtíðarinnar eru þeir gagnslitlir og jafnvel skaðlegir hagsmunum almennings. Og oft er það svo að nýir vendir sópa best. Stefnuskrár stjórnmálaflokka eru mannanna verk og ekki einu sinni klappaðar í stein. Móses kom ekki með þær ofan af fjallinu og samfélagsþróunin tekur stundum mjög lítið tillit til stefnuskránna og kenninga stjórnmálaspekingannna.

moses460

 


Myndin er ekki af formanni
 íslensks stjórnmálaflokks að færa flokksmönnum stefnuskrána, heldur er þetta leikarinn góðkunni Charlton Heston í hlutverki Móses þar sem hann kemur með boðorðin tíu ofan af Sínaífjalli.





Hollusta er oftast góð en flokkshollusta er það alls ekki alltaf. Flokkar eiga ekki að hafa neina hagsmuni. Þeir eiga að vinna að og vernda hagsmuni almennings. Það er því fullt tilefni til vera á varðbergi þegar stjórnmálamenn tönnlast á að „flokkurinn hitt og flokkurinn þetta“. Óhófleg flokkshollusta getur auðveldlega leitt til hugsunarlausrar fylgispektar og stuðnings við sérhagsmuni.

Og foringjadýrkun er alltaf vond. Hún grefur undan lýðræði og mannréttindum og sjálfstæðri hugsun. Sagan kennir okkur þetta. Og svokallaðir „miklir foringjar“ þrífast oft best í ófriði og átökum.  Sátt og samlyndi heillar þá yfirleitt ekki.

Mussolini

 

 



Mussolini taldi sig vera mikinn og snjallan leiðtoga og því trúðu því miður allt of margir. Hökusvipurinn átti víst að sýna stjórnvisku og staðfestu.










Og að lokum. Sátt við fólk og umhverfi, mannréttindi, jöfn tækifæri, virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum og hagsmunum, fjölbreytni í mannlífi og atvinnulífi, ábyrgð, gagnsæi og heiðarleiki í stjórnmálum og stjórnsýslu.  Þetta eru einkenni og stoðir góðs og innihaldsríks lýðræðis. Ég styð Bjarta framtíð vegna þess að hjá fólkinu sem þar er að koma saman hef ég fundið mikinn og einlægan vilja og kraft til að byggja  hér upp samfélag sem hvílir á þessum grunnstoðum.


Upplýsingar um starf og stefnu Bjartrar framtíðar má nálgast á http://www.bjortframtid.is/.

 

 

 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband